Góð stjórnun er ekki lúxus – heldur nauðsyn

Nýleg umfjöllun í Kastljósi um galla í nýbyggingum vakti athygli á því sem margir hafa fundið á eigin skinni: of stór hluti nýrra íbúða kemur ekki gallalaus úr verksmiðjunni, eða öllu heldur af byggingarsvæðinu. Samkvæmt nýrri rannsókn, sem Stefán Hrafn Jónsson prófessor í félagsfræði við HÍ kynnti í þættinum, þurfa um 40% húsfélaga í nýbyggðum fjölbýlishúsum að bera kostnað vegna galla – vandamál sem valda íbúum bæði fjárhagslegum og andlegum áföllum.
Þetta er ekki tilviljun. Þetta eru einkenni kerfis sem skortir agaða framkvæmdastjórnun, skýra verkferla og sameiginlega ábyrgð á öllum stigum verkefnisins.
Jónas Halldórsson, framkvæmdastjóri JTV, orðaði þetta þannig í viðtali við Viðskiptablaðið:
„Eins og við vitum er grunnur að öllum byggingum góðir hönnuðir, ekki er hægt að treysta á tilviljanir – sama gildir um framkvæmdastjórnun.“
Góð stjórnun er ekki lúxus. Hún er forsenda árangurs. Með markvissri og faglegri stjórn aukum við líkurnar á að verkefni nái markmiðum sínum, hvort sem það er varðandi gæði, tíma eða kostnað.
Á Íslandi stendur byggingariðnaðurinn á miklum tímamótum. Fram undan eru stór verkefni á sviði innviða, íbúðarhúsnæðis og atvinnumannvirkja. Slík verkefni fela alltaf í sér áhættu: tafir, aukinn kostnað og galla sem geta fylgt verkefninu árum saman ef ekki er tekið á þeim frá upphafi.
Þar kemur góð verkefnastjórnun – eða framkvæmdastjórnun eins og JTV kallar þetta hlutverk – til sögunnar. Hún byggist á skipulagi, samhæfingu og ábyrgð. Hún tryggir að ákvarðanir séu teknar á réttum tíma, að upplýsingaflæði milli verkkaupa, hönnuða og verktaka sé skýrt og að eftirfylgni með gæðum sé stöðug.
Þegar framkvæmdastjórnun er faglega unnin minnka líkur á mistökum og ófyrirséðum vandamálum. Það sparar bæði tíma og fé, en ekki síst skapar það traust.
Það er þetta traust sem þarf að endurbyggja í íslenskri byggingarstarfsemi. Þegar neytendur heyra endurtekið um leka, skekkju í gólfum eða mistök í frágangi, minnkar trúin á kerfið. En með faglegri framkvæmdastjórnun – þar sem gæði og gagnsæi eru leiðarljós – aukast líkurnar á að hægt sé snúa þeirri þróun við.
Hjá JTV höfum við séð þetta í framkvæmd. Með skipulögðum vinnubrögðum, stöðugum umbótum og notkun tækni í þágu verkefna, höfum við byggt upp aðferðafræði sem tryggir bæði gæði og ábyrgð. Góð stjórnun er ekki lúxus. Hún er nauðsyn. Hún er grunnurinn að betra byggingarumhverfi, sterkari iðnaði og heimilum sem standast tímans tönn.




